Skólar í Evrópu bregðast við innrás Rússlands í Úkraínu

Mynd: Daniele Franchi / Unsplash.com

Bekkir og skólastjórnendur um alla álfu hafa tjáð samstöðu með Úkraínu og kennarar hafa svarað spurningum nemenda sinna. Þessi grein beinir athygli að nokkrum lofsverðum hugmyndum og starfsháttum.

Tjáning samstöðu

Evrópskir skólar hafa gefið peninga, mat, fatnað, lyf og skólabúnað til Úkraínu. Í sumum tilfellum var fjármagni aflað með sölu á bakkelsi eða handgerðum hlutum (eins og skartgripum) og kortum sem nemendur skrifuðu.

Fyrir markvissari nálgun hafa sumir skólar haft samband við vinabæi sína eða systurborgir í Úkraínu – eða fundið samstarfsskóla í Úkraínu – til að spyrja hvað þau þurfa helst á að halda.

Mörg samstöðutákn hafa einnig verið gerð. Nemendur og starfsfólk hafa sungið Peace on Earth eða Imagine, komið saman til að mynda friðartáknið, lesið ljóð gegn stríði, lýst kennslustofur upp í úkraínsku fánalitunum eða búið til „horn“ gegn stríði.

2nd Primary School of Lavrio - bird's eye view of courtyard with students forming the words No to War

2nd Primary School í Lavrio á Grikklandi – þarna stendur „Nei við stríði“

Úkraínskum nemendum tekið opnum örmum

Evrópskir skólar hafa opnað dyr sínar fyrir úkraínskum flóttamönnum, eins og leikskólinn Footprints í Dublin á Írlandi, sem hefur boðið börnum sem eru að flýja yfirstandandi átök ókeypis pláss. Mörg Evrópulönd búa sig nú undir að taka úkraínsk flóttabörn inn í skólakerfin sín. Sem dæmi má nefna Pólland, sem tekur við stærstum fjölda flóttafólks – þar á meðal hundruð þúsunda barna á skólaaldri – en það tekur til sérstakra ráðstafana til að hjálpa þeim að aðlagast, þar á meðal að koma á fót undirbúningsdeildum og tryggja aðgang að þvermenningarlegu aðstoðarfólki og skólasálfræðingum.

Unnið gegn útskúfun

Á hinn bóginn vara kennarar við því að stríðið gæti valdið því að nemendur af rússneskum og hvítrússneskum uppruna verði útskúfaðir eða skildir útundan í skólanum. Til að vinna gegn þessu ættu kennarar að stöðva hugsanlega hleypidóma eins fljótt og þeir geta. Þeir ættu einnig að setja stríðið fram þannig að það sé heyjað af rússnesku ríkisstjórninni og rússneska hernum og gera það ljóst að rússneska þjóðin þjáist einnig vegna stríðsins. Skólasálfræðingar geta komið til aðstoðar ef þörf er á.

Hvatt til aðgerðastarfs nemenda

Nemendur og skólastarfsfólk taka þátt í mótmælum gegn stríðinu í stórum mæli, oft með stuðningi skólastjórnenda og sveitarstjórnar. Í Þýskalandi gaf skólamálaráðherra til dæmis u.þ.b. 250 þúsund nemendum í Hamborg frí til að taka þátt í „Föstudagar fyrir framtíðina“ mótmælum (grein á þýsku).

Að tala um stríð

Áður en kennslustundir hefjast og í frímínútum er næsta víst að fréttir um stríðið í Úkraínu eru á allra vörum á leikvellinum. Kennarar geta helgað hluta af kennslutíma sínum í að svara spurningum nemenda. Að hunsa viðfangsefnið gæti aðeins magnað upp „hávaða“ sem fyrir er þar sem nemendur herma hugmyndir hver eftir öðrum.

Hér eru nokkrar aðferðir sem hafa reynst vel.

Hlustaðu og hughreystu: Finndu út hvað nemendur vita nú þegar og leyfðu þeim að koma spurningum sínum, ótta og óvissu á framfæri. Útskýrðu að það er eðlilegt að hafa áhyggjur og að skorta svör, en reyndu að setja ímyndaðar aðstæður þeirra í samhengi.

Notaðu góðar heimildir: Falskar upplýsingar eru allsráðandi, sérstaklega á netvöngum sem eru vinsælir meðal ungra notenda, eins og TikTok og Instagram. Kennarar geta sett fram aðra áreiðanlega kosti, lagt fram staðreyndir og endurbyggt samhengi átakanna. Jafnvel er hægt að nota fréttirnar sem stökkpall fyrir kennslustund um fjölmiðlalæsi og upplýsingafölsun. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur stofnað síðuna EU solidarity with Ukraine og sett þar m.a. aðgerðir hennar til að vinna gegn upplýsingafölsun.

Leitaðu stuðnings hjá samstarfsfólki: Tölvupóstur frá skólastjórnendum þar sem kennarar eru hvattir til að tala um efnið í kennslustofunni getur verið nóg til að auka sjálfstraust þeirra og listi yfir algengar spurningar frá nemendum með hugsanlegum svörum og heimildum getur létt byrði þeirra. Kennarar geta einnig fengið ráð frá samstarfsfólki eða tekið skólasálfræðingana með í umræðum í kennslustofunni. Sumum nemendum gæti fundist þægilegra að tala við jafningja sína; í þessum tilfellum geta nemendafulltrúar gripið inn í.

Leitaðu stuðnings utan skólans: Aðrir hagsmunaaðilar í menntamálum hafa boðið skólum sínum stuðning. Í Belgíu var til dæmis einn skóli í samstarfi við úkraínska sendiráðið til að taka á móti barnabókum um Úkraínu sem voru aðgengilegar á bókasafni skólans, og í Hollandi fengu skólar skýrslu frá TerInfo við háskólann í Utrecht með leiðbeiningum um hvernig ætti að útskýra aðstæður fyrir nemendum (grein á hollensku).

Ef þú ert kennari hvetjum við þig til að búa til samstöðumyndbönd – með eða án nemenda þinna – til að senda til stuðningssamtakanna í þínu landi.


Viðbótarheimildir:

https://educateagainsthate.com/blog/posts/help-students-talk-news/

https://www.latimes.com/california/story/2022-03-07/ukraine-russia-misinformation-classroom-lessons

https://deutsches-schulportal.de/schulkultur/krieg-in-schule-thematisieren/ (á þýsku)

https://kinder.wdr.de/tv/neuneinhalb/sendungen/politik-und-weltgeschehen/sendung-konflikt-in-der-ukraine-was-ist-da-los100.html (á þýsku)

https://www.savethechildren.it/blog-notizie/come-parlare-di-guerra-a-scuola-e-articolo-11 (á ítölsku)